Kennsluhættir í Dalskóla
Í skólanum er áhersla lögð á einstaklingsmiðun í kennslu og námi nemenda. Kennslan miðar að því að nemendur nái þeim markmiðum sem að er stefnt. Kennslan hjálpar nemendum að tileinka sér þekkingu, skilning og færni á tilteknum sviðum. Í skólastarfinu er lögð áhersla á fjölbreytni í vinnubrögðum og kennsluaðferðum. Kennsluaðferðir og vinnubrögð taka tillit til aldurs, þroska og getu nemenda.
Leiðsagnarnám
Dalskóli hefur innleitt leiðsagnarnám og hefur verið leiðandi í þeirri innleiðingu ásamt fjórum öðrum skólum í borginni.
Grunnur leiðsagnarnáms (formative assessment) gengur út á að skapa góða námsmenningu sem leiðir til árangurs allra nemanda. Leiðsagnarnám í anda Shirley Clark er byggt á menntarannsóknum John Hatties en hann skoðaði hvaða kennsluaðferðir þeir skólar beittu sem næðu hvað bestum árangri. Þessar rannsóknir byggja á alþjóðlegum menntarannsóknum.
Námsmenning
Til þess að námsmenning verði þannig að hún leiði til árangurs allra þurfa kennarar og nemendur að rækta vaxandi hugstarf sem grunn. Til þessa beitum við skrifum og aðferðum Carol Dweck. Leiðsagnarnámið gengur svo út á að námsmarkmið hverrar kennslustundar séu öllum nemendum ljós, að allir nemendur fái tækifæri til þess að ræða námsáskoranir og námsmarkmið og fái í leiðinni tækifæri til þess að hugsa.
Námsfélagar
Við nýtum markvisst námsfélaga (samráðsfélaga) til þess að allir í námshópnum nái ígrundun og samræðu. Í leiðsagnarnámi taka nemendur jafnframt þátt í að setja viðmið um hvað þarf til að verkefnum sé fulllokið.